Kvennahreyfingin er femínískt baráttuafl sem leggur áherslu á jöfnuð í víðum skilningi. Í mannlegu samfélagi erum við öll samábyrg fyrir velferð einstaklingsins.
Því leggjum við áherslu á að borgin sinni skyldum sínum hvað varðar líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og öryggi borgarbúa.

Grunnstoðir samfélagsins mega ekki undir nokkrum kringumstæðum gera upp á milli fólks sökum uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu. Því miður er það ekki raunveruleikinn sem við búum við í dag og því ætlum við að breyta.

Markmið framboðsins er að gera Reykjavík að fyrirmyndar jafnréttisborg. Við ætlum að leiðrétta kjör svokallaðra kvennastétta og vinna af öllu afli gegn ofbeldi, hatursorðræðu, fordómum og jaðarsetningu. Við ætlum að skapa örugga, femíníska og umhverfisvæna borg þar sem allir borgarbúar hafa jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa. Það tapar nefnilega enginn á jafnrétti.